Verkefni

Nýr Landspítali Háskólasjúkrahús, Bílastæða- og tæknihús

TEYMI: Eykt + Tark + VSÓ + exa nordic STAÐSETNING: Reykjavík, Ísland  VERKKAUPI: VSÓ

Bílastæða- og tæknihús nýs landspítala háskólasjúkrahúss er u.þ.b. 20.000 fermetrar að stærð með 500 bílastæðum.  Hluti húsins er nýttur sem tæknirými fyrir háskólasjúkrahúsið.  Húsið er á 5 hæðum ofanjarðar og 3 hæðum neðanjarðar.

Langur líftími og mikið öryggi gagnvart jarðskjálftaáraun er lykilforsenda mannvirkisins, ekki síst vegna tæknirýmisins.

Bílastæðahluti hússins er svokallað pallahús, þar sem keyrt er upp hálfa hæð á milli palla. Bílastæðasvæðin eru 17 metra breið og súlulaus með stæðum til hvorrar handar til að tryggja hátt gæðastig notenda. Nokkurt bil er í plani á milli pallanna sem gerir skábrautirnar ekki eins brattar. Þetta bil í miðju hússins er auk þess opið upp allt húsið sem hleypir birtu niður allar hæðir og nýtist sem lagnaleið.

Burðarkerfi bílastæðasvæðisins er byggt upp með staðsteyptum 17 metra löngum, 150 cm breiðum og 78 cm háum eftirpenntum flötum plötubitum með grautuðum köplum. Þvert á þessa bita eru u.þ.b. 6 metra breiðar og 24 cm þykkar plötur með eftirspenntum ógrautuðum köplum.

Eftirspennan hefur tvíþættan tilgang, þ.e. að halda niðri sprunguvíddum sem eykur líftíma mannvirkisins og að gera mögulegt að komast af með lága nothæð burðarkerfis. Eftirspenntu bitarnir eru bornir uppi af 35 cm þykkum og 150 cm breiðum staðseyptum súlum. Milli súlnanna er staðteyptur handriðskantur. Vatnsúðakerfi, lýsing og önnur tæknikerfi eru upp á milli bitanna og eru þannig varin fyrir því að bifreiðar geti rekist í þau.

Burðarkerfi tæknihluta hússins er mjög flókin í stöllun og stöflun til að þjóna sem best sérþörfum ólíkra tæknikerfa. Þetta gerir það að verkum að veggir og aðrar burðareiningar standa oft ekki beint yfir hvert öðru, heldur verður að elta krafta flóknar leiðir niður húsið með tilheyrandi burðarþolslausnum.

Mannvirkið er grundað á klöpp. Neðstu hæðir hússins ná niður fyrir grunnvatnsborð og er sá hluti gerður vatnsheldur með járnbendingu og hitastýrðri steyputækni. Vatnþrýstingurinn þrýstir einnig upp undir botnplötur hússins, sem ekki hafa burðargetu á móti þeim þrýstingi vegna langra haflengda milli lóðrétta burðarkerfisins. Botnplötunum er því haldið niðri með bergboltum að hluta og þyngd hússins að hluta.

Þétt og gefandi samvinna burðarþolshönnuða með arkitektum mótaði staðsteypta burðarkerfið þannig að það þjónaði sem best burði og útlitsmótun hússins, enda mannvirkið á áberandi jaðarsvæði háskólahússreitsins.